3.5.2007 | 13:49
Margt í deiglunni, við förum þetta á seiglunni!
Daginn
Það er ekki hægt að neita því að það er nett fárviðri á þessum síðustu dögum fyrir kosningar. Helstu málin virðast vera: stóra Jónínumálið. Hvað varð um Íslandshreyfingunamálið. Ögmundur sagði þettaskoaldreimálið og ÁframeðaStoppmálið.
Stóra Jónínumálið
Ég held ég hafi aldrei áður séð jafn augljósa misnotkun á ríkisútvarpinu og þetta blessaða mál. Helgi Seljan samfylkingarkveif er annaðhvort að missa sig eða að láta misnota sig. Það er búið að marg berja ofan í þetta lið að hér sé svo sannarlega ekki um einsdæmi að ræða, hvorki hvað varðar tímann sem þetta tók, dvalartíma stúlkunnar né ástæðuna fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Það er því bara ein skýring á þessu máli. Seljan er búinn að selja sjálfan sig lúsugum djöflinum (lesist samfylkingarforustan). Þar að auki spyr maður sig, hver skaðaðist við þessa veitingu? Var einhver sem fékk ekki ríkisborgararétt á kostnað þessarar stúlku frá Guatemala?
Legg til að fólk smelli á fóninn "The girl from Ipanema" og njóti lífsins.
Hvað varð um Íslandshreyfingunamálið
Jah, þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör. Ég hafði reyndar aldrei trú á þessum furðulega samsöfnuði fólks úr öllum áttum. Þau eru öll góð á sínu sviði, Ómar með barnalögin, Margrét í borgarmálunum og Jakob Frímann á bakvið skemmtarann. Ég legg því til að þau haldi áfram því sem þau eru best í.
Því er best að allir smelli nú á fóninn "Þrjú hjól undir bílnum" og syngi sérstaklega hátt og snjallt með Íslandshreyfingunni "ekkert hjól undir bílnum, hann áfram skröltir ei meir, hann liggur á hlið, í hyldjúpri á....." því þannig er nú bara staðan.
Ögmundur sagði þettaskoaldreimálið
Ó jú, hann sagði þetta sko víst. Pistillinn er enn á heimasíðunni hans. Að fólk skuli reyna að bera á móti því og sérstaklega Steingrímur Joð í 1. maí þættinum. Halda þeir að fólk sé fávíst?
Setjum nú á fóninn Funeral March eftir Chopin til heiðurs bönkunum ef VG kemst til valda.
ÁframeðaStoppmálið
Ykkar er valið. Áframhaldandi hagvöxtur, kaupmáttaraukning, bæting á öllum sviðum þjóðfélagsins nú eða þá stóra stopp, kommúnísk hagstjórn, Ingibjörg Sólrún í áramótaávarpi (setur að mér hroll), upplausn í þjóðfélaginu og verri kjör fyrir alla, já fyrir alla segi ég.
Nú skulum við því setja á fóninn "Bankrobber (lesist Ögmundur)" með Clash og hrista af okkur þessa vinstri vitleysinga, netlöggurnar, anti bjóristana, anti litasjónvarpistana, anti leifstöðvarliðið, fólkið sem vill auka jöfnuð með því að gera alla jafn fátæka og þá sem berjast gegn íslenskri velferð.
Kveðja úr Kaupfélaginu
Snæþór
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.