Færsluflokkur: Bloggar
11.4.2007 | 16:26
Gerum Einar Ben stoltan
Daginn
Ræðum aðeins um pólitík. Ræðum aðeins um það hvers vegna það er svo fjandi mikilvægt að við höldum áfram að veita núverandi stjórnarflokkum umboð okkar til þess að stýra þessu litla landi okkar sem við köllum stundum Frón.
Þannig er mál með vexti að við Íslendingar erum framfaraþjóð. Eða við erum orðin það, við vorum það auðvitað ekki hér á öldum áður þegar við létum danina setjast á andlitið á okkur að vild og hentugleik þeirra. Nei, það var svona ca. rétt fyrir eða um aldamótin 1900 sem við fórum að berja frá okkur að einhverju viti. Menn eins og Jón Forseti, Einar Ben, Hannes og allir hinir sem voru nú komnir með upp í kok á þessu aumingja búskap sem hér var stundaður. Á þeim tíma voru þessir menn hinsvegar ekki þeir hálfguðir sem við lítum á þá nú og á ég þó sérstaklega við Einar Ben.
Maður spyr sig, hversu löngu fyrr ætli hin íslenska iðnbylting hefði hafist ef menn hefðu haft dug og þor til að fylgja á eftir hugmyndum Einars, 5 árum, 10 árum, 40 árum? Maður veit ekki. En þá spyr maður sig aftur, hvað kom nú í veg fyrir þær framfarir sem Einar vildi koma af stað? Jú, það voru afturhaldsseggir, hópar sem stýrðu landinu á þeim tíma og hræddust erlenda fjárfestingu, vildu frekar halda landinu í höftum fátæktar og aumingjaskapar frekar en að rífa sig upp, grípa tækifærin og stökkva með á iðnlestina.
Í dag erum við í ólíkri stöðu en þó ekki. Við erum með flokka sem vilja halda áfram að byggja upp öflugt atvinnulíf með fjölbreyttum atvinnuvegum (B og D) og svo á hinn bóginn erum við með afturhaldsliðið sem skrifar pésa eins og Fagra Ísland (S), bæklinginn um stóra STOPPIÐ við erum orðin allt of rík (V eða var það U), og svo auðvitað 1000 milljarða stefnuskráin (Í). Ég nenni ekki einu sinni að minnast á F-listann, þvílík endemis þvættingsvælan sem frá þeim kemur. Það er nefnilega algengur misskilningur að B og D séu bara að horfa á álbræðslur, kíkjum bara aðeins í kringum okkur og veltum því fyrir okkur hvernig staðan var uppi fyrir 12 árum þegar þessu gifturíka samstarfi var hrundið af stað. Þá vorum við með eina körfu og hún leit svona út.
- Sjávarútvegur 70%
- Allt annað 30%
Núna erum við hinsvegar komin með svona körfu:
- Sjávarútvegur 30-40%
- Stóriðja 5-10%
- Fjármálaþjónusta 20-30%
- Hátækni 5-10%
- Ferðaþjónusta 5-10%
- Allt annað 10%
Svona ca. Þetta eru ekki hátæknilegir útreikningar, meira svona tilfinning. Þannig að svona er staðan okkar, við erum á 12 árum komin úr einhæfu atvinnu mynstri yfir í fjölbreytt úrvals mynstur. Þetta er það sem kommúnist....afsakið, þetta er það sem vinstri grænir t.d. virðast ekki skilja, þetta er það sem íslandshreyfingin virðist ekki skilja, þetta er það sem samfylkingin virðist ekki skilja og vilja ekki skilja. Munið þið líka hver staðan var á atvinnumarkaðnum á sama tíma? Ef ég man rétt var atvinnuleysið einhver 5-7%, Framsókn lofaði 12.000 nýjum störfum og trallala skyndilega sköpuðust 15.000 ný störf. Auðvitað var það ekki framsókn sem gerði þetta ein og sér, nei nei ég er ekki að halda því fram en það sem framsókn og íhaldið gerðu var að skapa aðstæður fyrir fyrirtæki til þess að skapa þessi störf.
Hvað hefur svo gerst? Jú, öll þessi nýju störf, öll þessi nýju tækifæri hafa skapað þjóðfélaginu margfallt meiri tekjur en áður, kaupmátturinn flýgur upp, hagvöxturinn er einstakur og allt í gúddí. Auðvitað eru einhverjir fátækari en aðrir en þegar við skoðum heildar myndina. Þegar við berum okkur saman við aðra þá komumst við bara að þeirri loka niðurstöðu að við erum bezt.
Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa komið okkur hingað, setjum x við ríkisstjórnina (og auðvitað helst við B) og höldum áfram uppbyggingu landsins á sömu nótum. Gerum Einar Ben stoltan.
Kveðja
Snæþór
Bloggar | Breytt 16.4.2007 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.4.2007 | 16:31
Draumahnötturinn
Daginn aftur
Ég ætla að byrja moggabloggferð mína á því að endurvinna grein sem ég skrifaði fyrr á árinu. Gjörið svo vel.
Kæru Ómar, Steingrímur og aðrir gegn stóriðju á Íslandi.
Við búum á littlum bláum hnetti, við skulum kalla hann Framtíðarhnöttinn eða Draumahnöttinn, þið ráðið? Á hnettinum okkar búa margar þjóðir og innan hverrar þjóðar margir einstaklingar. Einstaklingarnir á Framtíðarhnettinum/Draumahnettinum nota bíla, flugvélar, húsnæði, hnífapör, geisladiska, alls kyns byggingarvörur, spegla og svo margt margt annað sem búið er m.a. til úr áli.
Í dag eru fjöldamörg álver út um allan Draumahnöttinn/Framtíðarhnöttinn sem framleiða álið sitt (fyrir mig og þig og alla hina á hnettinum) með því að nota orku sem kemur frá kola- og olíuorkuverum. Þau eru vond, voða vond, því að þau spúa út í andrúmsloftið á Drauma/Framtíðarhnettinum slæmum efnum sem m.a. eru að ýta undir svokölluð Gróðurhúsaáhrif. Kannski finnst andstæðingum álvera á Íslandi það bara fínt því að þá verður kannski svo hlýtt á Íslandi að hægt verði að baða sig í dögginni á Arnarvatnsheiði allan ársins hring án þess að verða að rúsínu. (þarna niðri sko)
Á Framtíðar/draumahnettinum er svo lítil eyja, þessi eyja heitir Ísland, sumir kalla hana Draumalandið eða Framtíðarlandið og er það vel, þetta eru falleg orð. Á þessari eyju er ofsalega mikil orka, og galdurinn er sá að orkan sú er hrein og endurnýtanleg. Þessvegna m.a. finnst mörgum sniðugt að nýta orkuna til þess að framleiða málminn (álið) sem við notum svo mikið af (vegna þess að hann er léttur og sparar aðra orku) á Íslandi/Framtíðarlandinu/Draumalandinu. Það myndi nefnilega verða til þess að 1-2-3-4 álver annarsstaðar á Drauma/Framtíðarhnettinum sem nota voða vondu orkuverin yrði lokað. Þá væri nú gaman á hnettinum okkar.
Það er nefnilega þannig að við öll, ég, þú og allir á hnettinum okkar berum saman ábyrgð á því að reyna að sporna við Gróðurhúsaáhrifunum. Við erum búin að taka risastökk með því að reisa gott Álver á Reyðarfirði, jú, mikið rétt, við fórnuðum landi í staðinn en á móti því var 1-2-3 álverum annarstaðar á Draumahnettinum lokað og við það hlífðum við svo miklu miklu stærra landsvæði heldur en Kárahnjúkum.
Hinsvegar eigum við við svolítinn vanda að stríða. Já, á Drauma/Framtíðarlandinu (Íslandi) er hópur fólks sem kallar sig umhverfissinna. En sama hvað þeim er bent á stóru myndina þá virðist það ekkert hafa að segja hjá þessum hóp því að Ísland er fallegazt í heimi og hér á landi er perlan, hér má ekkert gera því að öll hin löndin á Draumahnettinum eru ljót og þeim má sökkva fyrir Kárahnjúka. Þessi aðilar sem kalla sig umhverfissinna eru það bara ekki neitt, nei, þeir eru svona eins og Frjálslyndir eru varðandi innflytjendur, já þessir aðilar eru Umhverfis-rasistar.
Það er ljóst að ekki verður farið í fleiri Kárahnjúka, ekki mun minn flokkur standa fyrir því í það minnsta, því hefur hann lofað. Héðan í frá verður notast að mestu við gufuaflið sem við eigum svo mikið af og munum jafnvel eignast meira af með djúpborun.
Því bið ég ykkur andstæðinga álvera á Íslandi, þið sem þykist vera umhverfissinnar, horfið á stóru myndina!
Snæþór S. Halldórsson
Bloggar | Breytt 16.4.2007 kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.4.2007 | 15:26
Jómfrúr bloggið
Daginn lesendur
Það er víst löngu tímabært að flytja bloggið þangað sem fólkið er. Kaupfélagið á nú um þessar mundir þriggja ára afmæli. Þar hafa verið skrifuð einhver 300 blogg og heimsóknirnar á milli 30-40 þúsund.
En það er moggabloggið sem ræður ríkjum þessa dagana og því um að gera að skipta yfir.
Ég kveð því kaupfelag.blogspot.com með söknuði og tek til við að blogga á nýjum slóðum.
Kveðja
Snæþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)